2019-09-14 | PASG Philadelphia | Amy J. L. Baker
Þegar barn hafnar foreldri sínu getur verið erfitt að greina hvort höfnunin sé vegna þess að barnið hefur verið vélað til þess af hinu foreldrinu eða hvort höfnunin eigi rétt á sér vegna ofbeldis og vanrækslu. Það að barn segist ekki vilja hitta annað foreldri sitt eru eitt og sér of litlar upplýsingar til að hægt sé að greina þar á milli. Til að aðstoða við slíkt mat hefur þroskasálfræðingurinn Amy J. L. Baker tekið saman fræðilega, hagnýta og klíníska þekkingu sem unnist hefur með rannsóknum og búið til ramma fyrir greiningar sem hún kallar Fjögurra þátta líkanið.
Samkvæmt líkaninu eru fjögur atriði sem þarf að kanna svo hægt sé að meta hvort um sé að ræða barn sem er að útiloka foreldri sitt eða fráhverft barn, það er barn sem hafnar foreldri vegna ofbeldis eða vanrækslu. Það er mikilvægt að gera þann greinarmun þar sem meðhöndlun hvers máls er ólík eftir því um hvort ræðir. Ef um fráhverft barn er að ræða er yfirleitt gripið inn í með sértækri meðferð við fráhvarfi þar sem fundin er leið fyrir barnið til að umgangast foreldrið á þann hátt að það styðji við raunhæfa neikvæða skynjun barnsins af foreldrinu og til að foreldrið geti bætt fyrir gjörðir sínar og breytt hegðun sinni. Sértækri meðferð við útilokun er hinsvegar beitt þegar talið er að barn hafi neikvæða ímynd af foreldrinu vegna áhrifa frá öðrum. Sú meðferð miðar að því að hjálpa barninu að upplifa útilokaða foreldrið sem öruggt, ástúðlegt og aðgengilegt.
Fyrsti þáttur Fjögurra þátta líkansins beinist að því hvort áður hafi verið náið og ástúðlegt samband á milli barnsins og útilokaða foreldrisins, þar sem foreldrið lagði á sig tíma og fyrirhöfn til að koma á tengslum við barnið. Þáttur tvö snýst um að hvorki ofbeldi né vanræksla sé til staðar. Þáttur þrjú skoðar hvort hegðun hollustuforeldrisins valdi því að barnið útiloki hitt foreldrið án þess að slík höfnun eigi rétt á sér. Og þáttur fjögur skoðar hvort barnið hagi sér eins og útilokandi barn, en sjá má töluverðan mun á atferli barna eftir hvort þau eru að útiloka eða vera fráhverf foreldri sínu.
Baker vísar þar í kenningar Richard Gardner, bandarísks sálfræðings, sem sérhæfði sig í rannsóknum á áhrifum og einkennum foreldraútilokunar. Samkvæmt honum má sjá átta birtingarmyndir atferlis hjá börnum í málum tengd útilokun. Fyrst nefnir hann svokallaða niðurlægingarherferð en hún felst í að barnið neitar að eiga góðar minningar með útilokaða foreldrinu og hafnar að sjá fram á að vilja eiga í sambandi við foreldrið í framtíðinni. Barnið á það einnig til að vera hrokafullt, dónalegt, andstyggilegt, ögrandi og kröfuhart í samskiptum sínum við útilokaða foreldrið eða þegar það ræðir um útilokaða foreldrið við aðra. Þá kemur barnið með veikar og furðulegar ástæður fyrir að vilja ekki hitta útilokaða foreldrið. Einnig má sjá hjá barninu skort á tvíbendni og litla iðrun yfir meðferðinni á útilokaða foreldrinu. Þar að auki verndar barnið hollustuforeldrið, stendur með því í ágreiningi milli foreldranna og á til að endurtaka frasa, hugmyndir og yfirlýsingar sem það heyrir hjá hollustuforeldrinu eins og um sé að ræða þeirra eigin skoðanir. Að lokum dreifir niðurlægingarherferð barnsins gegn útilokaða foreldrinu sér meðal vina, fjölskyldumeðlima, nágranna og annarra sem tengjast á einhvern hátt barninu. Það verður til þess að fleiri slíta samskiptum við útilokaða foreldrið.
Börn sem beitt hafa verið ofbeldi haga sér ekki á þennan hátt. Þau reyna ekki að eyða fortíðinni heldur halda í góðu minningarnar með foreldrinu sem beitir þau ofbeldi. Þau koma ekki með veikar, léttvægar eða furðulegar ástæður fyrir að vilja ekki hitta ofbeldisfulla foreldrið, heldur tala þau um ofbeldið á trúverðugan hátt. Þau búa ekki yfir skorti á tvíbendni á þann hátt að þau tilbiðja ekki foreldrið sem beitir ekki ofbeldi, heldur sjá bæði gott og slæmt í báðum foreldrum. Þau sýna yfirleitt ekki skort á iðrun, standa ekki alltaf með hinu foreldrinu, reyna ekki að þurrka út mennsku ofbeldisfulla foreldrisins né slíta samskiptum við fjölskyldu og vini þess foreldris. Í stuttu máli þá sýna rannsóknir fram á að barn sem beitt er ofbeldi hafnar ekki ofbeldisfulla foreldrinu á sama hátt og barn hafnar útilokuðu foreldri. Útilokunarbarn og fráhverft barn sýna í raun andstæða hegðun þar sem barnið sem útilokar hafnar samskiptum en barnið sem beitt er ofbeldi sækir oft í aukna nálægð við foreldrið sem beitir það ofbeldi.
Þessar birtingarmyndir atferlis koma að gagni þegar foreldraútilokun er greind. Rannsóknir sýna að sjaldgæft sé að slíka hegðun megi greina hjá börnum sem eru þolendur ofbeldis og ef hún birtist sé hún almennt vægari en hjá börnum sem útiloka foreldrið sitt. Við greiningu er því lagt mat á hve margar birtingarmyndir eru til staðar og af hvaða styrkleika þær eru. Út frá því er síðan metið hvort um foreldraútilokun sé að ræða og hve alvarleg hún er, en hún getur verið væg, miðlungs eða alvarleg. Í vægum málum er barnið krefjandi í hegðun gagnvart útilokaða foreldrinu. Barnið hittir enn foreldrið en gefur til kynna að það treysti ekki foreldrinu. Í miðlungs alvarlegum málum streitist barnið gegn því að umgangast foreldrið og ef það hittir foreldrið er það mjög krefjandi. Með tíð og tíma, ef foreldri og barn eyða nokkrum samfelldum dögum saman, nær barnið yfirleitt að tengjast foreldrinu aftur. Í alvarlegum málum neitar barnið algjörlega að umgangast foreldri sitt. Ef það er neytt til þess er barnið gjörsamlega lokað tilfinningalega og forðast öll samskipti eins og það getur.
Til að rannsaka áhrif foreldraútilokunar á börn tók Baker viðtöl við fjörutíu fullorðna einstaklinga sem höfðu upplifað foreldraútilokun sem börn. Hún spurði spurninga á borð við hvort annað foreldrið hefði snúið þeim gegn hinu foreldrinu, hvaða áhrif það hefði haft á þau, hvaða þýðingu það hefði fyrir þau að hafa upplifað foreldraútilokun og hvaða áhrif útilokunin hefði haft á dómsmál. Allir þessir einstaklingar vildu meina að foreldraútilokunin hefði haft djúpstæð áhrif á líf þeirra og sér í lagi á sjálfsmynd þeirra, sjálfsálit, viðhorf til samfélagsins, samskiptahæfni og hæfni til að vera sjálfstæðir fullorðnir einstaklingar. Þar að auki hefði hún gert þeim erfitt fyrir er þau vildu slíta samskiptum við hollustuforeldrið. Það má því segja með nokkurri vissu að því lengur sem barn býr við foreldraútilokun því líklegra er að það muni glíma við þunglyndi og kvíða, að það staðni í þroska, eigi í erfiðleikum með sambönd, læri ekki gagnrýna hugsun né að takast á við og leysa ágreining af virðingu við aðra.
Samkvæmt Baker upplifa útsettir foreldrar mikla sorg þegar þeir fá ekki að umgangast barnið sitt, en sú sorg er í ætt við þá sorg sem foreldrar finna fyrir við andlát barns. Þegar um andlát er að ræða nær foreldrið þó yfirleitt á endanum að taka raunveruleikanum og samþykkja að hann mun ekki breytast. Fyrir útsetta foreldrið er barnið hinsvegar enn á lífi og því beinist sorgin fremur að því að vera meinað að taka þátt í lífi þess. Útsetta foreldrið upplifir þar af leiðandi ófullnægða þrá eftir umgengni við barnið ásamt áköfu hjálparleysi yfir að geta ekki verndað barnið sitt gegn illri meðferð sem það verður fyrir af hendi hollustuforeldrisins.
Hluti þeirrar þjálfunar sem Baker veitir útsettum foreldrum felst í að átta sig á að þó þau stjórni ekki hinu foreldrinu þá geta þau breytt eigin hegðun, sem getur haft óbein áhrif á hegðun annarra. Það getur verið styrkjandi fyrir útsetta foreldra að vita að þau geti þroskast og breyst sem foreldrar og með tímanum mögulega haft áhrif á barnið sitt. Eitt megin hlutverk þjálfunarinnar er því að hjálpa foreldrum að vita að þeir hafi gildi fyrir barnið sitt, einfaldlega með því að vera til staðar sem foreldri þrátt fyrir að samskipti við barnið séu lítil eða engin. Það er hugsun sem margir útsettir foreldrar eiga erfitt með þar sem þeir fá oft að heyra að þeir skipti ekki máli.
Annar hluti þjálfunarinnar snýr að foreldrum sem eru enn í samskiptum við börnin sín. Hún felst í að útsetta foreldrið breyti samskiptum sínum við barnið til að innræta það samúð, fyrirgefningu og heiðarleika með því að veita því athygli þegar barnið sýnir samúð og ræði um gildi þess að sýna öðrum samúð. Ef barn býr yfir þessum persónueinkennum getur það fremur sett sig í spor annarra og þannig minnkað líkurnar á að það verði útilokandi. Þá er einnig mikilvægt að útsettir foreldrar segi ekki við barnið að það sé útilokandi, stýrt eða heilaþvegið þar sem slíkt getur haft þveröfug áhrif. Á sama máta eigi útilokaða foreldrið að forðast að þvertaka fyrir ásakanir sem það verður fyrir af hendi barnsins. Oft sé um að ræða ásakanir sem barnið fær frá hollustuforeldrinu og ef útilokaða foreldrið einblýnir á að neita þeim getur það látið barninu líða sem orðspor útilokaða foreldrisins sé því ofar í huga en líðan og þjáning barnsins. Það getur styrkt neikvæða ímynd sem barnið hefur af foreldrinu og ýtt barninu lengra frá foreldrinu.