Flugslysið

Lykilorð

Útilokuð móðir sendi okkur eftirfarandi smásögu. Sagan er myndlíking og lýsir átökum, undrun og varnarleysi sem hún upplifði þegar hún stóð óvænt frammi fyrir því að yngsta barnið hennar hafði verið einangrað af föður sínum og snúið gegn sér og eldri systkinum sínum. Að sama skapi ímyndar hún sér upplifun dóttur sinnar. Barnið hennar var þolandi foreldraútilokunar, en hún hafði aldrei heyrt um slíkt og gat ekki ímyndað sér að slíkt væri til, hvað þá að fyrirbærið ætti sér nafn og að fleiri hefðu lent í slíku. Margir útilokaðir foreldrar lýsa því einmitt þannig að þeir hafi verið fullkomlega grunlausir þegar allt í einu er búið að snúa barninu þeirra gegn þeim og kerfið bregst algerlega. Þeim eru engar bjargir mögulegar.

„Flugslysið“

Það var dimmt og það var slydda. Flugvélin sem ég og börnin mín vorum í hafði brotlent. Þetta gerðist svo hratt að ég var ekki viss um hvað hafði í raun gerst. Ég man óljóst eftir að hafa komið mér út úr flugvélabrakinu – hvernig ég fór að því er mér ekki ljóst enn þann dag í dag. Ég man eftir að hafa skjögrað um, í myrkrinu, hrædd, blóðug og særð. Ég fann blóðið leka í augun og niður andlitið. Ég fann mikinn sársauka í annarri hendinni og ég átti erfitt með gang. Ég var ringluð, vissi ekki hvert ég átti að fara. Hvar voru börnin mín. Hvað hafði gerst. Ég ráfaði áfram um í myrkrinu, datt. Stóð aftur upp. Hrasaði.

Elsta barnið mitt, Mikael, hafði líka náð að koma sér út úr flakinu. Hann ráfaði særður áfram í myrkrinu eins og ég. Hann hafði farið aðra leið út en ég. Kærastan hans, Birna, komst út líka. Mikael var fótbrotinn og hélt utan um háls Birnu til að geta gengið. Bæði voru þau blóðug, hrædd og ringluð. Óviss hvert þau ættu að fara en myrkrið og slyddan byrgði sýn og því var leiðin frá flugvélaflakinu var hvorki auðsýnileg né greið.

Miðjubarnið mitt Leó, komst að sjálfsdáðun út flugvélaflakinu. Hann var blóðugur, særður og ringlaður. Einn. Hræddur. Leó var mikið særður, gekk haltur og blóðugur um svæðið. Vissi ekki hvert hann átti að fara eða hvað hann ætti að gera. Leitaði að mér. Leitaði að Mikael og Birnu. Leó fannst hann vera yfirgefinn, hann var örvæntingarfullur.

Yngsta barnið mitt, Ingibjörg, komst ekki út. Hún var horfin.

Ingibjörg; ég horfði út um gluggann á flugvélabrakinu. Ég var hrædd, dofin og vissi ekki hvað hafði gerst. Hvað hafði gerst? Ég var föst. Gat ekki komist út. Ég reyndi að berja í flugvélarúðuna. Ég sá móður mína fyrir utan gluggann. blóðuga, hrædda og ráfandi um. Ég vildi komast til hennar. Ég barði örvæntingarfull í rúðuna en ekkert hljóð heyrðist. Ég reyndi að öskra en ekkert hljóð kom frá mér. Þá varð ég enn hræddari og öskraði enn hærra. Það heyrðist ekkert hljóð úr hálsi mínum. Það heyrðist ekkert hljóð þegar hendur mínar börðu á rúðuna. Ég sá glitta í bræður mína og Birnu. Ég vildi komast til þeirra. Hvað var að gerast? Var ég dáin … orðinn draugur? Af hverju fann ég þá sársauka þegar hnefar mínir börðu í rúðuna. Af hverju heyrði enginn öskrin mín? Af hverju kom enginn að hjálpa mér? Fyrir utan gluggann sá ég slökkviliðsbíla koma, ég heyrði hávaðann í sírenunum. Svo sá ég sjúkrabíla og lögreglubíla koma. Þeirra sírenur voru líka í gangi. Hávaðinn var óbærilegur. Ég reyndi eins og ég gat að ná athygli þeirra, hrópa, berja en enginn heyrði í mér. Smám saman fækkaði fólkinu fyrir utan flugvélagluggann. Á endanum hurfu allir. Ég var ein eftir. Röddin mín heyrðist ekki. Höggin mín heyrðust ekki. Enginn sá mig. Ég virtist vera ósýnileg. Raddlaus.

Guðrún Jónsdóttir
útilokuð móðir

Höfundarréttur:
Foreldrajafnrétti
Útgáfudagur:
Apríl
2023
APA
Guðrún Jónsdóttir. (2023, April 25). Flugslysið. Foreldrajafnrétti. https://foreldrajafnretti.is/greinar/flugslysid/
MLA
Guðrún Jónsdóttir. “Flugslysið.” Foreldrajafnrétti, 25 Apr. 2023, https://foreldrajafnretti.is/greinar/flugslysid/.

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email